2. Þáttur – Arion Banki

Höskuldur H. Ólafsson
Bankastjóri
Ung stúlka stígur upp í strætó, greiðir fargjaldið og fær sér sæti. Frændi situr fastur í umferðarteppu á Miklubrautinni. Stúlkan skiptir um vagn á Hlemmi og heldur nú rakleitt niður Hverfisgötuna. Strætó staðnæmist fyrir utan Menntaskólann í Reykjavík. Hún gengur í átt að skólanum ásamt hjörð annarra nemenda. Frændinn leggur á bílaplani Háskólans í Reykjavík. Þau líta nú bæði á klukkuna. 08:20.
Eldhúsklukka í Arnarnesinu slær 8:20. Bankastjóri Arion Banka klárar síðustu kaffisopana yfir Morgunblaðinu. Bílskúrshurð opnast með sjávarsýn í bakgrunn. Dökkur, glansandi lúxusjeppi rennir úr hlaði. Mesti umferðarþunginn er nú hjaðnaður. Jeppinn rennur því frekar greitt og staðnæmist að lokum fyrir utan MR. Bankastjórinn gengur rakleiðis upp á aðra hæð skólans, lýkur upp dyrunum og kallar „Guðný Sóley?“. Nú eiga sér stað lyklaskipti fyrir utan stofuna. Bankastjórinn afhentir Guðnýju bíllyklana að lúxusjeppanum en fær þó aðeins strætókort til baka þar sem Guðný er aðeins 16 ára og ekki komin með bílpróf. Bankastjórinn gengur niður á Lækjatorg og reynir að finna hvaða vagn fer að Háskólanum í Reykjavík, því hann þarf að hitta/sækja hinn nemandann. Guðný Sóley tekur upp símann og hringir strax í pabba. Innan fárra mínútna er hann mættur. Hann gengur aftan að jeppanum og smellir grænum miða á skottið „Æfingarakstur“. Guðný keyrir nú að höfuðstöðvum Arion Banka í Borgartúni. Þrátt fyrir að vera ungur og óreyndur bílstjóri drepur hún ekki á bílnum enda bankastjóradrossían sjálfskipt. Vagn númer 15 staðnæmist í Nauthólsvíkinni. Bankastjórinn stígur út og gengur að HR ásamt hjörð B-nemenda sem eru orðnir of seinir í skólann. Í anddyrinu dregur hann upp símann og hringir í nemandann. Neminn kemur niður stigann af annarri hæð. Þeir heilsast og ræða dagskrá dagsins. Guðný Sóley er nú stödd á skrifstofum á 3. hæð í Arion banka. Hún gengur á milli og kynnist nýjum undirmönnum sínum. Að lokum sest hún niður með skrifstofustjóra bankans. Skrifstofustjórinn rennur yfir dagskrá nýja bankastjórans. Dagurinn er þétt setinn fundum og fyrirlestrum í aðalsal bankans. Áður en skrifstofustjórinn fer setur hann nælu í jakka Guðnýjar með nafnspjaldi „Guðný Sóley Magnúsdóttir – Bankastjóri – Arion Banki“.
Við Háskólann í Reykjavík situr frændi ásamt fyrrum bankastjóra Arion banka í strætóskýli. Frændinn lítur á bankastjórann og segir „Ég myndi bjóða þér í bílinn minn, en hann er óskoðaður, svo við getum ekki farið á honum með þessar myndavélar á eftir okkur.“ Eftir dágóðastund í skjólleysinu við háskólann staðnæmist strætó. Þeir ganga inn og fá sér sæti. Í Arion Banka situr stúlka á fundi. Það er augljóst að meðalaldur fundargesta lækkar töluvert við veru hennar. Í fyrstu virðist hún nokkuð feimin en þegar hún tekur til máls kemur í ljós að svo er ekki. Guðný Sóley talar við samstarfsmenn sína og spyr þá álits á því sem fram hefur komið á fundinum. Það verður strax ljóst að frændsystkinin eiga fátt annað sameiginlegt en að vera hávaxin. Frænkan kemur vel fyrir, hefur metnað fyrir þeim verkefnum sem koma upp og virðist bráðgáfuð. Frændinn er með svipað vaxtarlag og SS pylsa, langur og grannur. Hann reynir að hylja kollvikin sem hafa leikið hann grátt milli þess sem hann tosar niður peysuna sem augljóslega hefur skroppið saman í þvotti.
Guðný Sóley kveður fundargesti og gengur til skrifstofustjórans. Hún fær afhent minnisblað fyrir næsta fund, vikulegur fundur í Seðlabanka Íslands. Guðný skokkar niður stigann og út í bíl. Pabbi situr enn í fagurgljáðum jeppanum. Í þetta skiptið fær hann að keyra. Guðný sest í farþegasætið og les yfir minnisblaðið á meðan pabbi keyrir í Seðlabankann. Fyrrum bankastjórinn stígur út úr strætó. Hann er staddur við fyrsta vinnustað sinn. Hann stígur ásamt frændanum inn í höfuðstöðvar Póstsins. Bankastjórinn tekur strax eftir því að umfang Póstsins hefur vaxið gríðarlega. Þrátt fyrir það eru engar áberandi tækninýjungar. Þeir setjast við flokkunarbása og byrja að flokka póst. Starfið er ekki flókið en ljóst er að það þarf að hafa hraðar hendur til þess eins að halda í við þann starfsmann sem dælir reglulega í þá meiri pósti. Guðný Sóley sest við fundarborð ásamt starfsmönnum Seðlabankans og Fjármálaráðuneytisins. Minnisblaðið hefur verið vel unnið þar sem Guðný virkar vel undirbúin. Fundurinn er óformlegur og fólk ræðir saman á léttum nótum. Hinn nýi bankastjóri tekur sig vel út í starfinu, samanborið við nýja forstjóra Actavis vikunni áður. Hún tekur öðru hverju niður nokkra punkta. Töluverður sviti er kominn á enni póstflokkaranna. Fundargestir hlæja öðru hverju áður en fundi er slitið. Guðný Sóley ræðir við nokkra fundargesti fyrir utan fundarsalinn áður en hún sest undir stýri og keyrir aftur til höfuðstöðvanna.
Út úr Póstinum stígur gestur þáttarins. Hann ásamt frændanum virðast nokkuð fegnir því að komast út. Þeir ganga stuttan spöl og stíga upp í strætisvagn númer 6. Leiðin liggur út á Granda. Þeir ganga inn í litla kaffistofu við bryggjuna. Gesturinn ræðir þann tíma sem hann vann á kaffistofunni. Þeir ganga inn fyrir búðarborðið og inn í eldhús. Þar bíður þeirra ágætur stafli af uppvaski. Þeir setja á sig svuntur og hjálpast að við uppvaskið. Síminn hringir, Guðný er á línunni. Hún býður þeim í hádegishlaðborð í mötuneyti Arion Banka. Þeir halda áfram með uppvaskið en Guðný sendir tölvupóst á undirmenn með punkta af fundinum. Það er enn nokkuð í hádegismatinn svo hún ákveður að fara að skoða höfuðstöðvarnar. Það sem vakti strax athygli hennar var risastór gosbrunnur/foss í andyri bankans. Því næst skoðar hún fundarsalinn sem hún hafði áður verið í. Hann hangir í loftinu með vírum og er ekki steyptur í veggina. Hún hittir húsvörðinn á ganginum og spyr hann hvort það séu fleiri atriði sem hún ætti að skoða. „Tjah, ertu búin að skoða bíósalinn?“
Í hádegishlaðborðinu er úrval ýmissa kræsinga. Strákarnir tveir virðast töluvert hungraðari en hinn nýji bankastjóri. Guðný hefur augljóslega verið dugleg að kynnast starfsmönnum þar sem hún hefur varla undan að svara spurningum á borð við „hvernig er nýja starfið að fara með þig?“ og „hvernig gekk á fundinum í Seðlabankanum?“
Guðný Sóley sest við tölvuskjáinn ásamt aðstoðarmanni og þau renna yfir helstu tölvupósta morgunsins. Strákarnir sitja í strætóskýli fyrir utan bankann. Leið þeirra liggur vestur í bæ. Nánar til tekið, í hellulagningar á innkeyrslu við Hagamel. Gesturinn kennir frændanum helstu handtökin við hellulagningar. Nú verður atburðarrásin talsvert hröð. Gesturinn sinnir hverju starfinu á fætur öðru, milli þess sem hann stekkur upp í strætó. Frændinn fylgir gestnum eftir. Strákarnir verða sífellt þreyttari og sveittari með hverri vinnunni. Öðru hverju er svo skipt yfir til Guðnýjar sem hefur slegið í gegn á nýja vinnustaðnum. Hún sést brosandi og hlæjandi með nýju undirmönnum sínum.
Skrifstofa Arion Banka er að loka. Almennir starfsmenn halda heim. Að lokum er aðeins einn bíll eftir á bílaplaninu, fagurgljáður lúxusjeppi. Öll ljós eru slökkt í bankanum en lítil ljóstíra kemur frá stórri hurð á jarðhæðinni. Þar fyrir innan er stærðarinnar bíósalur. Guðný Sóley hefur komið sér vel fyrir eftir góðan dag. Bíósalurinn er allur hinn glæsilegasti, leðurklædd sæti og nægt fótapláss. Leonardo DiCaprio er á skjánum. Guðný tekur upp fartölvu, opnar Word og skrifar fyrsta starfið sitt á nýju ferilskrána. „Bankastjóri Arion Banka. Tímabil: 27. Ágúst. 2015 milli klukkan 09:00 – 17:00“. Guðný leggur fartölvuna frá sér og horfir á restina af The Wolf of Wall Street.