top of page

1. Þáttur – Actavis

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir

Forstjóri

Við erum stödd fyrir utan stúdentaíbúðir. Stóra, gráa blokk í nágrenni Esjunnar, oft nefnt Grafarholt. Inni í einni íbúðnni býr ungur háskólanemi. Þrátt fyrir smæð íbúðarinnar var hún augljóslega byggð 2007. Vekjaraklukkan er búin að hringja í nokkrar mínútur. Nemandinn hrekkur upp og stekkur í sturtu. Enginn tími fyrir morgunmat. Bíllinn fer af stað þótt eineygður sé. Umferðarþunginn dregur úr lífsviljanum eins og þynnkan síðasta sunnudag. Bíllinn staðnæmist fyrir utan parhús. Litlafrænka hleypur út í bíl og tuðar yfir því að hún sé að verða of sein í tíma. Loksins stoppar bíllinn á gatnamótum fyrir utan MR. Stelpan hleypur út úr bílnum. Umferðin þyngist enn. Að lokum leggur bíllinn við Háskólann í Reykjavík. Nemandinn lítur á klukkuna og sér að hún er 9:00.

           Nú víkur sögunni að grónu hverfi í Garðabænum. Vekjaraklukkan hringir, klukkan er 9. Á fætur rís forstjóri Actavis og opnar fataskápinn sinn, sem er hlaðinn dýrum flíkum. Hún klæðir sig og gengur inn í eldhús, sem er búið borði í miðju plássins, og gæðir sér á ávaxtasmoothie og múslígraut. Bílskúrshurðin opnast, forstjóradrossían rennir úr hlaði. Drossían staðnæmist fyrir utan Háskólann í Reykjavík. Forstjórinn gengur rakleiðis inn og virðist þekkja til átta. Hún bankar á stofuhurð og ákallar nemanda með nafni „Ólafur?“. Nú eiga sér stað lyklaskipti. Nemandinn tekur við bíllyklum og sest í leðurklædda drossíuna.  Forstjórinn gengur að blágrárri járnhrúgu sem á einhvern undarlegan hátt komst í gegnum skoðun.

Blágráa druslan staðnæmist nú fyrir utan MR og forstjórinn nær í hinn nemandann, litlu frænkuna sem hafði þegið far með háskólanemanum fyrr í þættinum. Söguþræðir forstjórans og frænkunnar sameinast nú og þær kynnast á jafningjagrundvelli. Færist athyglin yfir á nemandann í forstjórabílnum. Hann leggur í sérmerkt stæði við höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði, gengur inn og spyr hvar forstjóraskrifstofan sé staðsett.

            Þá víkur sögunni að forstjóranum og menntaskólanemandanum. Þær ræða stöðu hvorrar annarrar í bílnum og við fáum að kynnast bakgrunni forstjórans. Leiðinni er rakleiðis heitið í fyrstu vinnu forstjórans, Snæland sjoppuna á Laugarvegi. Sjoppan er tóm, þær ganga beint til verka enda forstjórinn með reynslu af sjoppuafgreiðslu. Fyrsta pöntun er hamborgaraveisla fyrir fjóra. Forstjóri Actavis ræðir við nemandann um fyrstu vinnur sínar á meðan hún steikir borgara og setur sósu á hamborgarabrauðin. Þær ræða um starfsferil þeirrar eldri á sama tíma og nemandinn lærir helstu handtökin í sjoppuafgreiðslu.

Þá er vikið til nemandans, sem nú gegnir forstjórastöðu Actavis í einn dag. Hann er ungur í anda og uppnuminn af þeim fríðindum sem honum bjóðast. Hann pantar sér mat upp á forstjóraskrifstofuna; hvítvínsleginn humar, kavíar og hvítlauksbrauð úr steinofni, ásamt fínu hvítvíni og er stálsleginn yfir því að þurfa ekki að greiða eina einustu krónu fyri þennan lúxus.
            Þá er aftur litið til forstjórans og menntaskólanemans en þau eru stödd í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, þar sem forstjórinn vann fyrir mörgum árum. Þar vinnur hún við að hleypa krökkum í Bílagarðinn og kennir börnum í röðinni umferðarreglurnar. Forstjórinn þarf ítrekað að leysa úr nokkrum umferðarflækjum auk þess sem einn rafmagnsbíllinn hefur endað utan vegar. Það er auðséð að ekki er mikill söknuður eftir þessu starfi.

Nemandinn í forstjórastöðu Actavis hringir í frænku sína og býður þeim í mat í hádeginu. Allir hittast í mötuneyti Actavis og ræða viðburðarríkan morgun. Nýji forstjórinn segist undrandi á því hvað það hafi verið lítið að gera hjá sér fyrir hádegi. „Ég er aðallega búinn að vera á Vísi og Facebook.“ Forveri hans spyr hvort hann sé ekki örugglega að fylgjast með netpóstinum, því starfið snúist að langmestu leiti um að svara tölvupóstum og mæta á skyndifundi. Nemandinn virkar hissa og kinkar bara kolli. Gestur þáttarins ræðir nú þau störf sem þær eiga eftir að heimsækja þennan daginn og fer nú að koma mynd á starfsferil forstjórans. Þegar nýi forstjóri Actavis er að standa upp frá borðinu og ganga frá disknum tjáir hann forvera sínum að hann hafi boðið nemandafélaginu sínu úr skólanum í mat og drykk næstakomandi föstudagskvöld í höfuðstöðvum Actavis. Nemandinn hlær og drífur sig aftur upp á skrifstofu áður en hann fær nokkurt svar. Þegar á skrifstofuna er komið kíkir neminn á póstfangið. 57 ólesin skilaboð. Nemandinn rennir í gegnum póstana en virðist engu nær. Hann tekur þó eftir því að fundur um „Þróun samheitalyfsins Amesil“ hefst eftir 30 mínútna. Ljóst er að alvaran hefur tekið við. Nemandinn kíkir fram á skrifstofu til að athuga hvar fundarsalurinn sé staðsettur. Starfsmaður á skrifstofu bendir á að fundurinn sé í Íslenskri erfðagreiningu. Nemandinn ætlar að hlaupa út í bíl en snýr snögglega við og spyr „hvað er ég að fara að gera á þessum fundi?“         
            Nú er alvöru forstjóri Actavis komin í annað starf: bæjarvinnuna. Hún málar hlið af mikilli kostgæfni og rífur arfa upp með rótum með þeirri leikni sem aðeins sjóaðir bæjarvinnuliðar gætu. Hún er moldug á puttunum og minnist þess hver launin hennar í þessari vinnu voru í denn.

Nemandinn mætir aftur í höfuðstöðvar Actavis með langan lista af spurningum eftir hádegisfundinn í Erfðagreiningu. Hann ræðir við undirmenn sína og leitast svara þó hann skilji ekki alveg spurningarnar sjálfar. Eftir að hafa rætt við nokkra sérfræðinga fer neminn að tölvunni til að senda þeim sem sátu fundinn þær upplýsingar sem óskað var eftir. „18 ólesin skilaboð“. Neminn geymir að lesa póstana og klárar að skrifa skeytið. Eftir að hafa smellt á „Senda“ sér hann að ólesnu skilaboðin eru orðin 21. Nemandinn stendur upp til að ná sér í kaffi. Sest aftur við tölvuna því hann á enn eftir að svara póstunum sem hann las fyrr um daginn. „28 ólesin skilaboð“. Starfsmenn bæjarvinnunnar slá gras á umferðareyjum Hringbrautar.  Nemandinn hringir milli deilda og aflar sér upplýsinga til að geta svarað tölvupóstum morgunsins. Eftir klukkustund hefur nemandinn svarað þremur skeitum. „33 ólesin skilaboð“. Neminn lokar tölvunni.

Blágrár bíll leggur við veitingastað í miðborg Reikjavíkur. Út stígur ung stúlka og önnur á besta aldri. Þær eru fínt klæddar með svuntu bundna um mjöðmina merkta veitingastaðnum. Þær ganga inn og sú eldri þekkir augljóslega vel til. Hún gengur beint til verka, kennir þeirri yngri helstu handtökin og þær þjóna til borðs.

          Starfsmannafundur er hafinn á markaðssviði Actavis og ungi forstjórinn fylgist vel með. Hann virðist ekki jafn ringlaður og eftir fyrri fundinn. Hann fer þó fyrr af fundinum því teymisvinna er hafin hjá vöruþróunardeild þar sem forstjórinn á að segja nokkur orð. Gestir veitingastaðarins eru farnir að tínast út hver á fætur öðrum. Nýji forstjórinn gengur upp á lítinn pall og les upp punkta af blaði. Sest svo aftur í sætið sitt og fylgist með. Fundurinn dregst á langinn. Almennir starfsmenn Actavis eru löngu farnir heim.

Bílskúrshurð í Garðabænum opnast. Inn rennur blágrá járnhrúga. Hún er komin heim í faðm fjölskyldunnar eftir langan en skemmtilegan dag. Vöruþróunarfundinum er lokið. Ringlaði forstjórinn gengur upp á skrifstofu, tekur blað úr prentaranum og skrifar „Sorry, nokkrir ólesnir tölvupóstar.“ Einn bíll stingur í stúf á bílaplaninu við stútentagarðana í Grafarholti. Svört, glansandi fólksbifreið á fægðum álfelgum er eins og demantur í svínastíu. Nemandinn opnar hurðina heima hjá sér og svellkaldur raunveruleikinn tekur við. Hann sest upp í rúm, opnar gamla fartölvu og bætir á ferilskrána sína „Forstjóri Actavis. Tímabil: 20. Ágúst. 2015 milli klukkan 08:00 – 16:00“

bottom of page